freyr@freyr.is
+354 663 8555

Að hrasa er að vera til

Helgin var góð. Gekk í blíðu meðfram Laxárgljúfri í Hreppum. Hrikalegt og fallegt. Af mér hrundu áhyggjur og svitaperlur. Elskaði landið og félagsskapinn. Hrasaði, tognaði og blótaði. Stóð upp, náði takti, hélt áfram.

Liðinn mánuðurinn var góður. Hjólaði fram og aftur um borgina. Vann að verkefnum með snörpu og góðu fólki. Vann með eigin venjur. Gekk vel. Skrapp vestur. Hrasaði, missti taktinn, hikaði, efaðist. Náði takti, hélt áfram.

Árið hefur verið gott. Hef fengið að fara um heiminn. Hef bæði staðið einn á tindum og kafað í mannhafið. Hef glaðst með börnum. Pirrað mig á börnum. Hét því að bæta mig, hrasaði, missti kúlið. Tapaði viku, náði takti, hélt áfram.

Lífið hefur verið gott. Margs er að minnast, margs er að sakna, fyrir ótal margt að þakka. Meira að segja einmitt þetta, að fá að hrasa svo oft og svo víða. Að hrasa er að vera til. Þurfa að haltra og hika, að finna til. Bölva í hljóði en standa upp aftur. Draga andann og draga lærdóm. Ná aftur takti, jafnvel nýjum takti. Halda áfram reynslunni ríkari, sterkari, ákveðnari, jafnvel betri.


Tilvísanir

Deila pistli

Aðrir pistlar

freyr@freyr.is
+354 663 8555