freyr@freyr.is
+354 663 8555

Er trekantur málið?

Hápunktur helgarinnar hjá mér var klárlega vel heppnaður trekantur. Ég hef prófað áður, með misjöfnum árangri, en nú gekk allt upp. Líkamlegt var það, hreyfing og sviti, vel valin orð í eyra og áhorf á fríska kroppa að iðka sitt sport, yndislegt.

Þessum hápunkti náði ég í Egilshöll í Grafarvogi, sportið var knattspyrna, æfingaleikur meistaraflokks Þróttar og Njarðvíkur. Það sem dró mig á völlinn var kærkomið tækifæri míns frumburðar og föðurbetrungs með liði Þróttar. Í eilífri leit minni að leiðum til að nýta tímann sem best, bætti ég tveimur þáttum við áhorfið á leikinn og fullkomnaði þannig trekantinn. Náði ég því samhliða leiknum ágætis hlaupaæfinu í áhorfendastæðinu sem og að hlusta á fína hljóðbók, Radical Candor eftir Kim Scott.

Meðan ég framkvæmdi þessa þríliðu auðnaðist mér um leið að sannreyna tilgátur valinna vísindagreina. Ég staðfesti til dæmis hið margkveðna að einbeiting er réttnefni, eitt og aðeins eitt getur átt athyglina í einu og óháð kyni (sorrý konur, rannsóknir sýna). Um leið og Freysson spretti fram völlinn og fangaði alla mína athygli, varð hljóðbókin að bíða, öðru máli gegndi um bakgrunns-vinnsluna, hlaupin, þeim gat ég haldið áfram án vandræða. Ég virðist því, líkt og aðrir sem hafa lært vel líkamlega færni, eins og að prjóna, ganga eða hjóla, geta framkvæmt hana á „sjálfsstýringu“ í bakgrunni meira krefjandi hugarverkefna.

Æfingin var um leið tilraun við tvær tilgátur, þ.e. að þegar áreiti og upplýsingar koma úr mörgum áttum, reyni á mörg skilingarvit, þá geti það verið til gagns í sumum tilfellum (sbr. rannsókn) og að máli skiptir hvort við séum búin undir fjölvinnslu (e. multitasking), líkt og ég var, eða ekki (sbr. rannsókn). Ágætis tilraun og skemmtun, en ég er efins, áfram stendur trú mín á það sem heilu bækurnar og fjöldi greina hafa staðfest að „fjölvinnsla“ og verkefnahopp heftir en hjálpar ekki, hvort sem um er að ræða unglinga eða eldri, einstaklinga eða teymi, ef fullrar athygli og andlegrar getu er þörf.

Hver er þá helsti lærdómur helgarinnar?

  • Það má alltaf finna tíma til að taka æfingu!
  • Hljóðbækur og hlaðvörp geta verið fræðandi ferðafélagar, jafnvel á knattspyrnuleik.
  • Radical Candor er áhugaverð bók, sérstaklega fyrir þá sem vilja verða góðir stjórnendur.
  • Þróttur er með efnilegt lið sem verður gaman að fylgjast með áfram.

Eftir stendur stóra spurningin, er trekantur málið? Hér talar augljóslega maður með reynslu. Þetta hljómar spennandi, draumur fyrir einhverja. Þó ég hafi prófað, þá minni ég á að ekki er allt eins í draumi og í raun. Þó við þykjumst geta einbeitt okkur að tveimur (einbeitingarefnum) í einu, þá ráðum við ekki almennilega við það og því getur endað illa ef ekki er varlega farið! Stundum er því líklega hollast að lofa draumnum að duga.

Deila pistli

Aðrir pistlar

5V9A3570 sh

Ný heimasíða

freyr@freyr.is
+354 663 8555