freyr@freyr.is
+354 663 8555

Gengið í takt

,,…vinstri hægri, einn, tveir, einn, tveir, vinstri, hægri… staðar nem, einn, tveir!”

Sögusviðið er Gunnarshólmi í Austur-Landeyjum. Við, yngri deildin, tæplega tuttugu krakkar úr þremur yngstu bekkjum skólans, gengum hring eftir hring í litla salnum. Inni í hringnum lagði línurnar Albert á Skíðbakka, bóndinn af næsta bæ sem gaf sér tíma milli mjalta til þess að kenna okkur púkunum eina af mikilvægustu lexíum lífsins, að ganga í takt. Eftir takti Alberts örkuðum við, tókum tilsögn, réttum úr okkur, reyndum að forðast að stíga (kína)skóna af næsta manni. Eftir ótal hringi byrjaði parketið loks að dúa í takt, bóndinn brosti: ,,…vinstri, hægri, staðar nem, einn tveir!”. Upphitun lokið og glíman tók við.

Í dag fæ ég stundum að standa inni í hringnum og hjálpa til við að koma rétta taktinum á, en nú er það eldri deildin. Það heitir ekki lengur vinstri, hægri eða gönguæfing. Í dag heita æfingarnar útlendum nöfnum eins og Scrum og Kanban, takturinn er sleginn með daglegum standandi fundum, reglulegum sýningum og rýni á vinnubrögðin þar sem gefst færi á að laga taktinn, því lítið gengur ef skórinn er stiginn af næsta manni í öðru hverju skrefi.

En þvílík sæla þegar ,,parketið” fer að dúa í takt, þegar hópurinn greikkar sporið, ánægja og afköst aukast. Þá hugsa ég með þakklæti til lexíunnar austur í Landeyjum, sé fyrir mér gamla bóndann Albert, teinréttan og glaðbeittan, leggja grunninn að lífsins glímu. “…áfram gakk, einn, tveir!”

Deila pistli

Aðrir pistlar

freyr@freyr.is
+354 663 8555