Nú árið er liðið, jólin brennd í burtu í gær. Þar með fuðraði upp síðasta afsökunin fyrir að halda áfram „sukkinu“. Góð stund til að gera litlar breytingar til hins betra. Koma á kerfi sem virkar, fjarlægja freistingar, fjölga hvetjandi áminningum. Það er lítill vandi að stíga í hægri fótinn, á eftir þeim vinstri á göngu… Hvert verður þitt næsta heillaskref? Með vinstri eða hægri?
Í hvað við viljum eyða orku okkar og tíma? Hverju getum við verið án? Sagt er að „ákvarðanavöðvinn“ þreytist. Ef þú sinnir vandasömu starfi, með ótal ákvörðunum, er betra að „vöðvinn“ sé klár þegar þörf krefur. Þá gæti verið klókt að einfalda aðra þætti lífins. Sagt er þetta sé ástæðan fyrir því að þeir Mark Zuckerberg og Steve Jobs hafi nær alltaf klæðst eins fötum, dag eftir dag. Minni orka í fataval, meiri orka aflögu í alvöru „business“!
Hver er þinn aðal „business“?
Það er magnað hve lítinn aga þarf, ef skipulagið er gott.
Það er magnað hve margar hugmyndir koma í pásu, uppbroti, á göngu, eftir erfiða lotu.
Það er magnað hve létt er að finna drifkraftinn ef tilgangurinn er ljós.
Græjum skipulagið, pössum upp á pásurnar, munum tilganginn og eitthvað magnað mun gerast!
Magnað ár framundan, ekki satt?
Skráðu þig á póstlistann til að fá gagnlega litla mola jafnt sem lengri pistla í pósthólfið.
© 2022 - 2023, Staka ehf.