freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #23

— Gagnabóndinn

Í mjólkurframleiðslu hefur, líkt og á mörgum öðrum sviðum, orðið bylting síðustu áratugina. Nútímabóndinn er ekki bara kúabóndi, hann er líka gagnabóndi. Góð mjólkurnyt er minnst tilviljun eða heppni. Nytin byggir frekar á natni bóndans við að sinna sínu, rýna í gögn, stilla breytur. Hiti, lýsing, fóður, efnainnihald, tími og tíðni gjafa og mjalta er nú eitthvað sem (gagna)bóndinn horfir til í viðleitni sinni við að fjölga góðu dögunum í fjósinu, auka nytina. Bóndinn þarf að horfa á heildarmyndina, tryggja að kúnum líði vel, þær fái sitt, til að þær skili sínu.

En hvað með okkur, nútímamanninn? Með snjallúri og síma má nú mæla og skrá magn og gæði svefns, hreyfingu, næringu, púls og pásur. Mæla tímann sem við eyðum í fókus, fréttir, fundi, fjölskyldustundir, endurmenntun, íhugun o.s.frv. Við getum síðan greint hverju þetta skilar, hvernig dagarnir verða þegar upp er staðið, gefið einkunn, skoðað árangurinn. Með því að skoða eigin gögn yfir lengri tíma sjáum við jafnvel mynstur.

Hvort heldur við missum allt í skrúfuna, eða allt er upp á tíu, þá getum við rýnt í orsökina í gögnunum? Er það í raun svefninn, hreyfingin, morgunrútínan, hugarfarið eða samskiptin sem eru okkar uppskrift að góðum degi? Hverju þurfum við að breyta? Góðir dagar eru sjaldnast tilviljun eða heppni, ekki frekar en nytin í fjósi góða gagnabóndans.

— Getur minna orðið að meira?

„Less is more“, segir máltækið, minna er meira. Er mögulega eitthvað, svona í upphafi ársfjórðungs, sem þú ættir að gera minna af, sleppa? Hlutir að losa sig við? Einfaldað? Geturðu mögulega gert minna og afrekað meira?

— Bílglerin og lífsins leið

Áfram keyrum við í gegnum lífið, líkt og ökumenn á bíl. Reynum að stýra framhjá hættum, finna bestu leiðina. Þá er nú best að horfa fyrst og fremst fram á veginn, í mesta lagi gjóa augunum til hliðar á ljósum, veita fortíð og framtíð athygli í svipuðum hlutföllum og stærð glerjanna fyrir framan okkur í bílnum, framrúðunnar og baksýnisspegilsins.
Áfram veginn…

Aðrar þrennur

5. nóvember, 2020
Könnun eða raun?
Geturðu meira?
Takmarkalaus snilld

freyr@freyr.is
+354 663 8555