freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #34

— Lítið og ómerkilegt

Hvað þarf til að komast af stað? Stundum er lítið og ómerkilegt best. Að við finnum það minnast og ómerkilegasta sem við getum gert, sem þó kemur okkur ögn nær markmiðinu. Kosturinn við lítið og ómerkilegt er að því þarf ekki að fresta! Tekur því ekki að sleppa! Ein mínúta? Eitt skref? Strax að lestri loknum?

— Ritstjóri lífsins

Einu sinni las ég í bók, sem ég er löngu búinn að gleyma hver var, hve snjallt það er að ráða sig sem ritstjóra, þó alls ekki við blaða eða tímaritaútgáfu, enda varla til valtari stólar en ritstjórastólar. Nei, ráðið er að gerast ritstjóri að eigin lífi! Ritstjóri sem veit að til að heildin verði góð þá þarf að klippa út og hafna miskunnarlaust, jafnvel stórgóðum köflum, jafnvel sínum uppáhalds.

— Fullkominn hugbúnaður

Ég er ekki aðeins alinn upp í sveit, heldur líka í hugbúnaðargerð. Í þeim bransa lærði ég margt, eins og að fullkomnun er fallegt hugtak en vandmeðfarið. Þannig vann ég einu sinni með hópi af ungu, eldkláru og skapandi fólki að því heilan vetur að skrifa heilan haug af Word skjölum sem lýsti hönnun og virkni hugbúnaðar sem við ætluðum að búa til. Hugmyndin var fullkomin. Allt var gert samkvæmt aðferð þess tíma, „Waterfall“. Ótal fundum og blaðsíðum síðar lá fyrir hin fullkomna afurð, fullkomin lýsing á fullkomnum hugbúnaði. Fullkomið ferli ekki satt? Það var bara eitt „smáatriði“ sem var ekki upp á tíu. Okkur láðist að spyrja, fyrir hvern? Fyrir utan hópinn sem kom að „hugbúnaðargerðinni“ var því miður enginn áhugi á vörunni. Það var enginn viðskiptavinur! Fullkomið klúður!
Eftir stendur því enginn forritskóði eða hugbúnaður, en góðar minningar og þessi ófullkomna saga, enda fullkomnun stórvarasöm! 😇

Aðrar þrennur

21. janúar, 2021
Gagnabóndinn
Getur minna orðið að meira?
Bílglerin og lífsins leið

freyr@freyr.is
+354 663 8555