freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #41

— Byrjað á brauði

Æskuminning. Kaffitími. Hlaðið borð af kræsingum. Kanelsnúðarnir nýkomnir úr ofninum. Ilmurinn lokkar lítinn mann. Teygi spenntur fram höndina að snúðafatinu. Vakinn af draumi. „Freyr minn! Hér byrjum við á brauði!“

Í dag. Vinnudagur. Hlaðinn heimur af spennandi upplýsingum. Nýjar fréttir streyma úr ofninum. Samfélagsmiðlarnir svigna af slúðri og hvers dags gleði og sorg. Teygi spenntur fram músarhöndina. Vakna af draumi við gamalt stef. „Freyr minn! Hér byrjum við á…“. Anda djúpt. Hugsa þakklátur til mömmu. Byrja á pistlinum.

— Kveikt og slökkt

Kveikjur eða „triggerar“ eru skemmtilegt fyrirbæri. Hugmynd. Í hvert sinn sem ég heyri jólaauglýsingu þá nota ég það sem kveikju. Slekk á miðlinum. Kveiki á jákvæðni-radarnum. Finn eitthvað jákvætt í fari næstu manneskju sem ég hitti. Brosi. Hrósa.

— Á baki fílsins

Ég er í miðri bók. „The happyness hypothesis“ eftir Jonathan Haidt. Himnasending hlaðin fróðleik. Höfundur líkir heila okkar við knapa á fílsbaki. Þar sem gamli, kviki, hræddi, viðbragðahluti heilans er fíllinn en skynsami rökvísi hluti heilans er knapinn.
Myndin er skýr. Ef fíllinn vill fara eitthvað, þó hann fælist bara undan mús, þá getur knapinn lítið gert annað en að reyna að hanga á baki. Knapans er að skilja, þjálfa og umbera hrædda dýrið.
Okkar er að sjá að við, okkar heili og hugsun sem heild, er bæði knapi og fíll. Ef knapinn setur stefnuna, temur, stýrir og skilur skepnuna, þá er fátt sem stöðvar, þó ýmislegt geti hent á langri leið.

Aðrar þrennur

17. nóvember, 2022
Hver og hvað
Svefn og ragn
Óreiðulögmálið

freyr@freyr.is
+354 663 8555