Blótarðu stundum átökum í eigin teymi? Eða átakaleysi? Hefur já-kórinn alltaf rétt fyrir sér, af því hann syngur einni röddu? Stundum eru átök, önnur rödd við borðið, einmitt hraustleikamerki. Einmitt það sem þarf til að bæta útkomuna.
Stubburinn ég stökk út úr búðinni á björtum eftirmiðdegi, arkaði að bílnum. Sá útundan mér hávaxið glæsimenni halla sér upp að glæsikerrunni sinni. Svo sá ég strókinn. Hann var einn af þeim. Reykingamaður! Ég strunsaði áfram, með uppbrett trýnið. Fulltrúi fullkomleikans hér á jörð. Hann tók stubbinn, henti í jörðina og traðkaði á (þ.e. á rettunni, ekki mér).
Hann hefði allt eins getað grýtt mér. Siðapostulanum snar hitnaði í kviðnum. Með samanbitnar tennur, sannfærður um eigin ágæti, spurði ég manninn: „Gerirðu þetta heima hjá þér?” Hann hváði við. „Hendirðu stubbum á stofugólfið heima hjá þér?”, hélt ég áfram, tilbúinn í gagnárásina frá nýfundnum andstæðingi. Maðurinn brosti til mín með öllu andlitinu. Það var eins og hann hefði fundið upp afstæðiskenninguna sjálfa þarna á bílaplaninu. „Já, heyrðu, ég hafði bara ekki hugsað út í þetta. Takk kærlega fyrir þetta!”, sagði hann og tók upp stubbinn.
Þessu svari átti ég síst von á. Hlunkaðist inn í bílinn. Ekki eins og sigurvegari, heldur eitthvað allt annað. Afvopnaður ók ég af stað. Á næstu ljósum leit ég til hliðar. Úr næsta bíl brosti hann til mín og veifaði. Ég veifaði á móti og kreisti fram bros. Hristi hausinn yfir afskiptaseminni í mér. Enn meira yfir reiðinni. Ó, hve reiðir litlir kallar geta verið kjánalegir.
Að minnsta kosti annar okkar lærði eitthvað þennan dag.
Skráðu þig á póstlistann til að fá gagnlega litla mola jafnt sem lengri pistla í pósthólfið.
© 2022 - 2023, Staka ehf.