freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #61

— Virði úr sjó og texta

Í morgun vaknaði ég í lítilli birtu í lítilli borg við sundin blá. Steig út. Fiskimjölsilmurinn fyllti vitin. Undirstöðu atvinnuvegurinn minnti á sig. Að færa virði úr sjó á land.

Þetta minnti mig á grunninn í mínu pikki. Ef orð mín færa þér ekki virði, í formi gagns eða gleði. Þá eru augu þín og athygli fljót að finna sér annað betra annarsstaðar. Af nægu er að taka. Fiskar í sjó eru takmörkuð auðlind, ólíkt ábendingum sjálfskipaðra beturvitrunga á ýmsu formi.

Hverjum færir þú virði í dag?

— Girðingavinnan

Það þekkja þeir sem unnið hafa í girðingarvinnu að engu skiptir hve vel er gengið frá girðingum í upphafi, þeim þarf að halda við.

Okkar innri girðingar eru eins. Sama hve hugsunin er góð við að girða okkur og okkar vinnubrögð af, þá þarf reglulega að ganga á staurana og negla lykkjur, bæta slitna strengi, strekkja hér og hvar.

— Hvatt til dáða

Þegar mikið er að gera er freistandi að hugsa til þess að vinna hraðar, vinna lengur, fórna pásum, hreyfingu, fjölskyldustundum. Aukin afköst okkar sem einstaklinga eru þó átakanlega oft aðeins talin í prósentum. Prósentum sem við þurfum jafnvel að skila skömmu síðar.

Ef við viljum bæta eigin afköst gefur hin leiðin gjarnan meira. Að staldra lengur við en ekki skemur, vinna snjallar og í snjallari hlutum.

Allra mestu skilar ef við náum að efla aðra, hjálpa hópnum að gera betur. Þá loksins getum við farið að horfa til margfeldis! Eða eins og (splunkunýja) máltækið segir: Ef kát viljum ganga til náða, þá hvetjum við aðra til dáða!

Aðrar þrennur

7. apríl, 2022
Grjót og gler
Mæta manneskja!
Teygjan og títuprjónninn

freyr@freyr.is
+354 663 8555