freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #64

— Söngur, vax og mastur

Söngur sírenanna, gyðjanna í fornsögu Hómers, var svo lokkandi að enginn fékk staðist. Enginn gat beislað viljann. Hver sem heyrði óð áfram án þess að ráða við sig.

Ódysseifur fann ráð. Hann fékk skipsfélaga sína til að fylla eyru sín af vaxi og binda loks sjálfan sig fastan við mastur skipsins.

Hvern dag syngja sírenur í okkar umhverfi. Jafn heillandi og hafgyðjur, svo heillandi að illmögulegt er að beisla viljann, enda kenndi Hómer okkur fyrir þúsundum ára að eftir að söngrödd sírenunnar er byrjuð að berja á hljóðhimnunni, þá er það um seinan!

Okkar er að byrgja brunninn í tíma. Finna okkar mastur, finna okkar vax!

— Eldfjöll

Við erum öll meira og minna eldfjöll. Með mis opna kviku.

Búandi á eldfjallaeyju vitum við að það er bara spurning hvenær kvikan sýnir sig. Stundum kemur jarðskjálfti á undan, stundum ekki. En gosið kemur, svo mikið er víst! Áfram búum við þó hér, kynslóð fram af kynslóð, vitandi vits. Við getum búið hér því við höfum lært að horfa á gosin úr hæfilegum fjarska, taka þau ekki of nærri okkur, hlutgera, vitandi að öll gos taka enda.

Okkar er að feta áfram dagana, enn tilbúnari þegar byrjar að ólga, hvort heldur er undir eigin skinni eða fótum.

— Uppsöfnun auðs

Ef við viljum safna upp auði þá er aðeins eitt mikilvægara en að byrja að safna á morgun. Það er að byrja að safna í dag! Við byggjum auð á auði. Vextir bætast við höfuðstól og heildin ber vexti.

En auður er ekki bara aurar. Auður getur verið allskonar og alltaf virðist þetta einfalda lögmál eiga við. Við lærdóm, þar sem við tengjum þekkingu við þekkingu, reynslu sem hleðst á reynslu, tengslanet sem magnar upp tengslanet. Jafnvel kærleikur eflir kærleikann!

Spörum aurinn, spreðum knúsunum!

Aðrar þrennur

8. apríl, 2021
Lítið og ómerkilegt
Ritstjóri lífsins
Fullkominn hugbúnaður

freyr@freyr.is
+354 663 8555