freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #65

— Leiðakerfið

Kúabóndinn bíður ekki eftir lönguninni til að mjólka kýrnar, heldur fetar sína leið út í fjós, hvern morgun, hvert kvöld.

Strætisvagnsstjórinn bíður ekki eftir lönguninni til að aka af stað, heldur fer sína leið, þegar tíminn er kominn, tíu í, tuttugu yfir…

Í fullkomnu frelsi er freistandi að fljóta bara með, mæta, bregðast bara við, stökkva til við píp og pot. En á hvaða leið erum við? Erum við að fylgja eigin leiðakerfi eða annarra?

Hvert erum við að stefna? Er leiðakerfi hinna að koma okkur örugglega á áfangastað? Nú er ráð að rýna í kerfið, ef við viljum ná að mjólka úr okkur okkar mestu snilld!

— Stefnumörkun

Það getur verið skemmtileg æfing að setja niður fallega frasa um markmið fólks og félaga. En hvað er það, ef ekki er rýnt í aðstæður, stöðu okkar, samkeppni?

Mið sem er sett án þess að pæla í aðstæðum er sannarlega mið út í loftið. Stórvarasamt! Það vita best þeir sem migið hafa á rafmagnsgirðingu!

— Kosning dagsins

Í lýðræðisríki kjósum við reglulega. Setjum x í réttan reit. Í dag deili ég með þér kjörgögnum sem má nota daglega. Leið til að kjósa hvern dag að gera það sem við teljum okkur til gagns.

Af eigin reynslu og ráðum annarra legg ég til að hafa fyrsta skrefið kjánalega auðvelt. Það er lítið mál að bæta í eftir að við höfum komið okkur í gang með litla venju. Furðu strembið að festa sem daglegt brauð.

Ég set upp einfalt dæmi með 5 mín eða lengra af hugleiðslu, spjalli við aðra manneskju og hreyfingu. Allt gott fyrir andann, en þitt er að velja þína leið. Ólíkt kjörklefanum þá má nefnilega stilla upp kjörseðlinum að vild, en engu minna mikilvægt að kjósa rétt!

Sjá mitt dæmi á Excel formi hér og PDF formi hér.

Aðrar þrennur

20. janúar, 2022
Þjálfari ársins
Bruðlað
Dásemd

freyr@freyr.is
+354 663 8555