Nú árið er liðið hjá okkur, en úti í Kína er enn ár tígursins, framundan eru áramót, ár kanínunnar bíður. Þar er hvert ár þannig kennt við eitt dýr, á sér sitt orð. Við, hvert og eitt, getum farið að þessu fordæmi. Valið eitt orð fyrir árið. Eitt orð sem gerir árið aðeins betra?
Hvernig væri að hefja nú ár hróssins, brossins eða knússins? Ár lærdóms eða lestur, kæruleysis eða kappsemi, eftir því hvað við þurfum helst?
Ó hve hlutverkin eru ólík, frá því tegund okkar veiddi og safnaði á gresjunum. Nú tilheyra æ fleiri nýrri „tegund” þekkingarstarfsfólks!
Þekkingarstarfsfólkið má þó, ekki frekar en fyrirrennararnir á gresjunni, staldra of lengi við að njóta. Við verðum að gjöra svo vel að halda áfram að leita uppi nýjan lærdóm, nýja þekkingu, ný tækifæri, annars eigum við á hættu að verða undir í harðri samkeppni á tæknigresjunni.
Grunn í sundi lærði ég af góðum manni í lauginni á Skógum, undir Eyjafjöllum. Þar lærði ég að til að komast sem fyrst í mark þá borgar sig að spyrna af krafti frá bakkanum, fara á dýptina, vera einn undir yfirborðinu, án truflunar eða buslugangs, taka þar kröftugt kafsundstak.
Nýti þessa aðferð enn í dag í vinnu, hvern morgun, hvern dag, mæli með.
Skráðu þig á póstlistann til að fá gagnlega litla mola jafnt sem lengri pistla í pósthólfið.
© 2022 - 2023, Staka ehf.