freyr@freyr.is
+354 663 8555

Þrenna #71

— Bræður og systur

Í gær hitti ég góða systur. Systur sem ég vissi ekki að ég ætti. Systur í íslenskum tækniheimi. Sama uppeldið, sömu „foreldrar”. Á klukkutíma kenndi hún mér svo mikið. Við kvöddumst með knúsi, hétum skjótum endurfundum.

Í liðinni viku hitti ég bróður, sem ég vissi ekki að ég ætti. Bróður í íslenskum tækniheimi, sama uppeldið, sömu „foreldrar”. Á rúmum hálftíma kenndi hann mér heil ósköp. Við kvöddumst með samanbitnar tennur, óskuðum hvor öðrum góðs og þess að hittast helst aldrei aftur.

Maður er víst ekki allra.

— Klippt og arkað

Enska orðið ‘decide’ á sínar rætur í latínu, samsett orðunum caedere = klippa og de = af.

Holl áminning þess að órjúfanlegur þáttur þess að velja er að hafna! Við náum víst aldrei að ferðast eftir öllum greinum lífstrésins. Við verðum bara að klippa og arka áfram.

— Andstæðurnar

Njóta einhver betur matar en þau sem koma soltin að borði?
Læra einhver betur en þau sem kenna?
Hvílast einhver betur en þau sem hafa tekið á af öllu afli?
Gleðjast einhver meira en þau sem sorgina þekkja?

Aðrar þrennur

17. september, 2020
Eitt í einu
Þegar þrennt er allt en eitt er ekkert
Fimm á dag

freyr@freyr.is
+354 663 8555