Færðu stundum tölvupóst sem segir: „Hafðu endilega samband við mig í næstu viku/mánuði etc.“ Ef þú ert á annað borð í „tölvupóst-ham“ þá þýðir það bara eitt… þú skrifar póstinn strax og tímastillir hann þannig að hann sendist á viðeigandi tíma! Málið afgreitt. Láttum tölvurnar um það sem þær eru bestar í!
Ein besta leiðin til að afgreiða tölvupóst er að líta á tölvupóstflæðið eins og fisk á færibandi. Þú skimar ekkert yfir eða kroppar aðeins í þá þorska sem þér líst best á á bandinu og geymir aðra til betri tíma. Ó nei! Sama á við póstana. Þúsund póstar á færibandinu þarfnast afgreiðslu og verða að fá að þjóta áfram! Þá er mikilvægt að hafa reglu að fylgja þar sem hver og einn póstur er afgreiddur á ákveðinn hátt. Ég sjálfur afgreiði hvern póst á þrjá mismunandi vegu:
- Lesinn (eða merktur lesinn) eða honum eytt.
- Merktur til afgreiðslu síðar (stjarna/flagg).
- Svarað/afgreitt strax.
Ekkert annað! Aldrei líta til baka, aldrei að hika, einn tölvupóst í einu! Söng ekki Bubbi einmitt um árið… Þúsund póstar á færibandinu þokast nær?!
Þarftu að sannfæra einhvern? Manna verkefni? Selja? Tölvupóstur er ágætur (sérstaklega ef hann er lesinn) en hann verður seint talinn áhrifaríkasti miðillinn í samskiptum! Mín topp „goggunarröð“ samskipta er eftirfarandi:
1 - Hittast, einn á einn.
2 - Lifandi vídeó samtal.
3 - Lifandi hljóð samtal.
4 - Messenger, snap, eða annað spjall með hljóði og/eða mynd.
5 - Texta spjall, Messenger, Slack, SMS, etc.
6 - Senda persónulegan póst, skemmtilegan og grípandi, einn á einn.
7 - Senda póst, persónumiðan, en samt á fjölda í einu. (Lauma inn persónulegri tengingu í hvern póst)
8 - Senda almennan póst á póstlista með Mailchimp eða öðru góðu póstlista-tóli.
Skráðu þig á póstlistann til að fá gagnlega litla mola jafnt sem lengri pistla í pósthólfið.
© 2022 - 2023, Staka ehf.