Eftir nokkur ár í ráðgjöf með heimasíðu í nafni Staka Consulting var mig farið að langa að vera með síðu í eigin nafni. Ég ákvað að stíga fram sem sá sem ég er og ætla að verða áfram, Freyr Ólafsson.
Á miðju ári 2019 var ég svo lánsamur að Bændasamtök Íslands, sem eitt sinn gáfu út búnaðarblaðið Frey, leyfðu mér að eignast lénið freyr.is. Þar með hafði ég grunn að byggja á.
Ég var búinn að hripa niður mínar helstu hugmyndir um hvað ég vildi sýna á síðunni. Af og til yfir langt tímabil átti ég gott spjall við tvö eðal drengi, það er grafísku hönnuðina Anton Jónas Illugason og Simon Viðarsson. Flinkir strákar og hæfileikaríkir, kröfuharðir og nákvæmir. Strákar sem ég hef verið svo heppinn að vinna með áður hjá Sportabler og FRÍ. Strákarnir fengu sitt næði með punktana mína. Þeir komu til baka með hugmynd að þessu sköpunarverki sínu. Allt út pælt, litir, hlutföll, letur, samsetning. Ég var sáttur.
Sá sem fékk það verkefni að koma þessu saman var vefforritarinn og sleggjukastarinn Bergur Ingi Pétursson. Ekki bara lipur í snúningum með sleggju, heldur líka í allri samvinnu. Bergur notaði Elementor á WordPress til þess að vefa þetta allt saman. Sjá meira um þennan flinka vefara á: https://berguringi.com
Seinnipart sumars náðum við nafnarnir ég og Skagfirðingurinn Gunnar Freyr Steinsson ljósmyndari einum eftirmiðdegi saman. Ég heppinn því Gunnar er með sérlega gott auga fyrir góðum römmum, sbr. https://www.gunnarfreyr.com
Þá var komið að mér sjálfum að ganga frá texta á síðuna. Ég raðaði inn myndum frá Gunnari. Það sem upp á vantaði af myndum greip ég af unsplash.com.
Með síðuna gróf tilbúna var ekki annað hægt en að rífa plásturinn af. Sýna fjölskyldu og vinum, fá yfirlestur og rýni. Þau tættu ýmislegt í sig, sem von var, ég reyndi að betrumbæta.
Mín góða vinkona og UX gúrú-ið Magga Dóra eigandi Mennskrar ráðgjafar https://www.mennsk.is, var síðan betri en engin í rýni á flæði og nytsemi, enda áberandi best í sínu fagi (hlutlaust mat!).
Endanlega útkoma er það sem þú ert nú að skoða. Enn er ýmislegt sem mætti bæta. Þannig er það bara og verður áfram. Fullkomnun er mjög vafasamt markmið að stefna að. Eða eins og John Lasseter, fyrrum stjóri Pixar sagði einu sinni: „Við klárum ekki myndirnar okkar, við bara frumsýnum þær.“
Þessi síða hefur hér með verið frumsýnd.