freyr@freyr.is
+354 663 8555

Stjórnun sem sjálfboðastarf, brjálæði eða besti skóli?

Ég vildi að ég gæti sagt þér að leið mín í gegnum lífið hafi öll verið útpæld og plönuð. Það kæmi líklega betur út fyrir stjórnendaráðgjafann en svo er einfaldega ekki. Flestar mínar stærri ákvarðanir hef ég tekið í stundarbrjálæði, án þess að rýna náið í hvað á eftir kæmi.

Í upphafi árs 2009 tók ég eina slíka ákvörðun. Frjálsíþróttadeildin í hverfinu mínu, frjálsíþróttadeild Ármanns, mátti á þeim tíma muna sinn fífil fegurri. Mér var ekki sama og sá þarna gríðar stóra og mikla áskorun. Á þessum tíma rétt eftir hrun var ég í leit að tilgangi, frekar en verkefnum. Ég var önnum hlaðinn við að stýra stórum alþjóðlegum hugbúnaðarverkefnum en of oft hafði ég séð hugbúnaðinn enda á hillu og rykfalla þar eftir allt erfiðið. Í stundarbrjálæði í þessari hrunvímu ákvað ég sem sagt að safna liði og leggja mitt að mörkum til að byggja upp íþróttastarf í hverfinu. Án þess að átta mig fyllilega á því festi ég mig með þessu sem stjórnandi í sjálfboðastarfi.

Stundirnar sem fóru í þetta verkefni voru ótal margar og oft krefjandi, mun fleiri en mig gat órað fyrir. En þó finnst mér núna að þetta verkefni hafi gefið mér margfalt meira en ég hef lagt að mörkum. Í félagsstarfinu gefast einstök tækifæri til að þróa sig og þroska. Að kafa í mannhafið, kynnast fólki, læra inn á eðli þess og áhuga. Það er góður skóli og kennir meira en nokkur bók eða fyrirlestur.

Í mínu verkefni hef ég lært gríðar mikið um verkefnastjórnun, viðburðastjórnun, sölu og markaðsstarf, samstarf við fjölmiðla, lært um skipulag íþróttahreyfingarinnar, borgar og stjórnmála svo fátt eitt sé nefnt. Ég hef byggt upp tengsl við gríðar margt einstaklega gott fólk sem ég mun lifa á það sem eftir er og er endalaust þakklátur fyrir. Þetta tengslanet hefur nýst mér vel núna á fyrstu mánuðum mínum í að byggja upp mitt ráðgjafarfyrirtæki.

Nú eru rúm sjö ár liðin. Fyrir um tveimur vikum hætti ég sem formaður frjálsíþróttadeildar Ármanns og tek við nýju sjálfboðastarfi hjá FRÍ. Á þessum tímamótum lít ég til baka. Nú get ég miðlað af reynslu og sagt án þess að hika, ef þú sérð áskorun sem krefst mikils af þér, tækifæri til að taka að þér krefjandi verkefni í sjálfboðastarfi, láttu vaða! Ekki bara fyrir félagsskapinn eða verkefnið, heldur líka þín vegna! Þú færð það margfalt til baka.

Deila pistli

Aðrir pistlar

5V9A3570 sh

Ný heimasíða

freyr@freyr.is
+354 663 8555