freyr@freyr.is
+354 663 8555

Stutt skref að stórum sigrum

Miðvikudagurinn 5. júní 2019 getur orðið mikill tímamótadagur fyrir okkur, mig og þig. Þetta er fyrsti miðvikudagurinn í júní. Tilvalinn dagur fyrir okkur til að bæta okkur smá.

Ég er heillaður af þessu magnaða fyrirbæri venjum. Hvort sem það er góð venja eða vond, siður eða ósiður þá finnst mér fyrirbærið í meira lagi áhugavert.

Stór hluti þess sem við gerum yfir daginn er ósjálfráð venja. Kemur þetta líklega til af því að með ósjálfráðum venjum getur heilinn sparað orku. Við rennum í gegnum hinar ýmsu venjur, því sem næst á sjálfsstýringu. Morgunrútínan, leiðin til vinnu, kvöldrútínan o.s.frv.

Ég á sjálfur mjög gott safn af vondum venjum sem ég rúlla í gegnum reglulega. Dæmi eru döpur umgengni og án efa vafasöm hegðun á köflum. Annað safn á ég myndarlegt, það er safn af brostnum vonum og venjum. Góður ásetningur, aumt úthald. Ég þarf vart að minna lesendur mína á ,,þriðjudagspistlana”, ef ég man rétt urðu þeir tveir, síðan frestaði ég að birta pistil fram á miðvikudag eina vikuna, það var nóg, venjan dó!

Við þessu er ekki endilega töfralausn. Fátt er auðveldara en að fara út af braut bættra venja. Ég hef þó af reynslu og lestri góðra bóka sannfærst um að litlar bætingar, stutt skref, séu mun líklegri leið til árangurs en stór skref. Stuttur pistill er til dæmis mun betri en langur, vilji maður koma á rútínu miðvikudagspistla. En lykilatriði til að halda sér brautinni beinu er að sætta sig aldrei við nema eitt misstig. Að sleppa rútínunni í annað sinn getur þýtt endalok (takk James Clear).

Ég leyfi mér því að velta upp spurningunni, hve lítið telur þú þig geta bætt þig í dag? Ef þú vilt til dæmis koma þér úr engu í ágætt göngu- eða hlaupaform, þá gæti verið ágætis áskorun fyrir þig að taka fram skóna og reima þá á þig… ekki meira! Á morgun gætirðu síðan prófað að ganga í skónum 100 skref. Með daglegri lágmarks bætingu endarðu á tindinum háa.

Gangi þér vel að bæta þig í dag, eins lítið og þú getur 😉

—–

Eftirtöldum þakka ég innilega fyrir innblásturinn:

  • Andra bróður mínum og Steina Móses Hightower bróður hans með þessum snilldar texta, Stutt skref
  • Leo Babauta venju- og pistlasmiður Zenhabits.
  • Minn uppáhalds pistlahöfundur og nú bókarútgefandi, James Clear, sjá hér.
  • Vinum og lesendum sem hafa hvatt mig til að koma mér aftur í skrif-rútínu

Deila pistli

Aðrir pistlar

freyr@freyr.is
+354 663 8555