freyr@freyr.is
+354 663 8555

Tætt í gegnum daginn

Í landbúnaði lærði ég fyrst að vinna. Ungur tók ég hvers kyns vélavinnu fegins hendi, eins og að tæta upp tún. Á Zetor dólaði ég áfram í lága drifinu. Árangurinn náðist með einfaldri aðferð. Að byrja snemma, stoppa aldrei, láta ekkert trufla sig og hætta ekki fyrr en síðasti blettur var tættur. Ekki einu sinni kall náttúrunnar fékk að trufla, með handolíugjöfina fasta hélt ég í stýrið með annarri og vökvaði flagið með besta vininum með hinni. Einfalt líf á beinni braut.

Við vélavinnu sem þessa er maður strammaður af og í einum ham. Svo lengi sem svefninn er nægur til að sofna ekki undir stýri er maður í einföldustu vélavinnu í nokkuð góðum málum.

Nú er öldin önnur. Í borginni er ekki nein bein braut fyrir mig að aka eftir. Í frelsinu á skrifstofunni þarf ég að finna brautina sjálfur, hemja mig og temja.

Uppskriftin mín er svipuð og í sveitinni. Ef ég á krefjandi verkefni fyrir höndum þá virkar best að mæta snemma, vera vel sofinn, tryggja að ekkert geti truflað, slökkva á öllum tilkynningum í síma og tölvu, gera öllum ljóst að nú sé ég í ham¹.

Rétt er að taka fram að ekki eru allir morgunfuglar. Sumir eru nátthrafnar og skrifa og skapa best að kvöldi. En sama gildir hvort er morgunn eða kvöld, verkefnavings (e. multitasking) er vonlaus aðferð við krefjandi og skapandi vinnu, já líka fyrir ykkur konur!2

Við tætingar á túnum í sveitinni gat maður haldið áfram meðan enn var olía á tanknum og afköstin voru mest undir vélinni komin. Í borginni er það andinn okkar sem ræður afköstum. Andinn afkastar best í ,,fókuseruðum” lotum og sprettum, ekki á langtíma lulli í lága drifinu. Við erum betri ef við tökum alvöru pásu. Vatnskælirinn eða kaffivélin eru þekkt fyrir að gefa góðan innblástur. Sannreynt er að skjálausar pásur, á hreyfingu, helst utandyra, með öðrum, gefa andanum besta fóðrið3.

Þegar líða fer á daginn og lækka á tankinum hjá okkur morgunfuglum er fínn tími til að koma sér í léttari verk. Þá er fínt að afgreiða tölvupósta eða fyrirspurnir, helst í lotu, hringja símtölin sem þarf að hringja, eða gera hvað annað sem krefst ekki of mikils andlegs styrks.

Að loknum degi getum við vonandi litið sátt yfir afköstin á ,,akrinum”. Þá búin að tæta í gegnum verkefni dagsins, vonandi ekki of tætt samt… og getum haldið heim á ný, fyllt aftur á tankinn, tilbúin í nýjar áskoranir á nýjum degi. Heldurðu að þú komist í ham í dag?


Pistillinn er tileinkaður pabba, sem hefði orðið 67 ára í dag. Hann kenndi mér að vinna. Með góðu fordæmi, nærveru og samveru sem ég sakna í dag sem aðra daga.


  1. Víða í ráðgjafarvinnu minni segir mér fólk sem vinnur í stórum opnum rýmum að vinnustaðurinn á vinnutíma sé ekki góður til að vinna. Pælið í því! Stór opin vinnurými eru ekki uppskrift að starfsánægju eða árangri, punktur! Já það má kaupa höfuðtól, mæta fyrr, vinna heima… en væri ekki betra að hanna vinnurýmið þannig að það henti til að ná afköstum og árangri? Líklega efni í sér pistil, en læt þennan punkt duga í bili.
  2. Rannsóknir sýna að karlar og konur eru jafn afleit í að ,,gera tvennt í einu”. Sjá t.d. pistil um málið hér.
  3. Daniel H. Pink fer vel yfir pásur til afkasta í öðrum kafla bókarinnar When. Sjá samantekt Samuel T. Davis hér.

Deila pistli

Aðrir pistlar

freyr@freyr.is
+354 663 8555