freyr@freyr.is
+354 663 8555

Vanaliðið

Í liðinni viku gaf ég „ríkisráðið”: Hálftíma hreyfing á dag, alla ævi! Stuttur pistill, orðagrín um hálftíma æfingu á dag, heilsunnar vegna. Ég get staðfest að pistillinn naut fádæma óvinsælda. Til þess að bíta höfuðið af skömminni fylgir nú annar pistill um sama efni, þessi meira að segja stuðar. Aðeins allra hörðustu lesendur munu halda út til enda, þar sem rúsínan bíður í pistilsendanum.

Ráðið sem ég þóttist hafa fundið er ekkert nýtt. Embætti landlæknis hefur gefið út bækling um hálftíma daglega hreyfingu, starfsmenn embættisins hafa kallað hreyfinguna lífselexír í pistli. Þó þetta séu ekki ný vísindi þá hefur ýmislegt nýtt komið fram síðustu ár, eins og varðandi áhrif hreyfingar á heilastarfsemi, mikil jákvæð áhrif æfinga á eldra fólk, svo eitthvað sé nefnt. Af hverju hreyfa sig þá ekki allir rösklega hálftíma á dag, frá vöggu til grafar? Hressandi hreyfing er eina geðlyfið án aukaverkana, eina afkastahvetjandi lyfið sem gerir þér bara gott, þyngdarstjórnunartæki sem styrkir andann um leið.

Eins og svo margt annað gott og slæmt snýst hreyfingin, eða skortur á henni, líklega mest um langanir okkar og vana. Margvísleg fíkn og vondar venjur viðhaldast vegna þess að við viljum forðast óþægindi. Af hverju ætti nokkur manneskja sem hefur fyrir augum sér endalausa uppsprettu hamingju á skjá að slökkva og fara út að hreyfa sig? Það er jafnvel óþægilegt, við forðumst óþægindi. Því óþægilegra sem ástandið er verra.

Það er engin skyndilausn. Við þurfum að breyta venjum. Að breyta venjum er erfitt. Að breyta venjum tekur langan tíma og krefst úthalds okkar sjálfra, jafnvel stuðnings, nær og fjær. Að breyta venju skilar ekki árangri fyrr en eftir langa mæðu og það er sérstaklega erfitt í umhverfi og samfélagi sem setur ekki langtíma-hugsun eða árangur á oddinn. Stiklum á stóru…

Íþróttahreyfingin er drifin áfram af fólki, eins og mér, sem þyrstir í árangur, stolt heimilisins, liðsins, sveitarfélagsins, landsins. Fólki með getu og áhuga á afrekum er sannarlega sinnt og það í langtíma uppbyggingu, en beint og óbeint er þeim sem ekki ná árangri vísað frá, að minnsta kosti ekki alltaf sinnt jafn vel og öðrum. 

Stærstur hluti heilbrigðiskerfisins er í viðbragðsham, kerfið er klárt til að greina sjúkdóma, lækna með aðgerðum og lyfjum. Kerfið bíður eftir því að fólk með vanda, m.a. eftir vondar venjur, banki á dyrnar, reiðubúið að selja því lausn við vandanum, skyndilausn. Græða ekki allir á því?

Svo alhæft sé áfram og nú um skólakerfið, þá virðist skipulag hreyfingar í kerfinu ekki snúast um að nýta ábatann af hreyfingunni (bætt námsgeta, einbeiting, líðan o.s.frv.) heldur að uppfylla staðla, námskrá, útfrá misskildum hagsmunum akademíkeranna.

Hverjir eru þá í dag í venjubreytingar-liðinu? Eigum við að nefna það Vanaliðið? Liðið sem hjálpar ungmennum sem gamalmennum upp úr stól og sófa, hreyfir við hreyfingarvenjum í fyrirtækjum og stofnunum? Liðið sem bendir á að fimm mínútur á dag séu góð byrjun, í fimmtíu daga, venjunnar vegna. Liðið sem býður vini út að ganga eða hlaupa, bendir á hvernig bæta má venju við venju og gera að góðum vana.

Við munum byltinguna varðandi lýðheilsu með reykingalöggjöfinni. Ég gæti trúað að við sem þjóð hefðum gagn af slíku átaki varðandi hreyfingu, blöndu af snjallri löggjöf og hvötum, þó eflaust muni einhverjir mótmæla slíku (eins og dæmin sanna). En við þurfum enga löggjöf til að byrja og megum ekki við því, við getum byrjað strax í dag, saman. Stofnum Vanaliðið, grasrótarhreyfing um góðar venjur. Venjur eins og fimm mínútna hreyfingu á dag í fimmtíu daga? Ganga eða hjóla til vinnu, þó ekki væri nema síðasta kílómetra leiðarinnar? Ein lítil venja sem má gera að vana, byggja á. Smám saman getum við bætt við mínútum, öðrum venjum og því mikilvægasta, fengið fleira fólki með í að byggja upp góðar hreyfivenjur, einn dag í einu. Ertu með?

Deila pistli

Aðrir pistlar

freyr@freyr.is
+354 663 8555